Bandarískur alríkisdómari hefur úrskurðað að ættingjar þeirra sem létust í flugslysinu í Eþíópíu árið 2019 geti farið fram á skaðabætur. Farþegaþotan sem hrapaði var af gerðinni Boeing 737 MAX 8 og um borð í henni voru 157 farþega.

Tilskipunin kom frá bandaríska alríkisdómaranum Jorge Alonso í gær í Illinois-fylki og er hún talin vega þungt gegn Boeing þar sem fleiri réttarhöld um skaðabætur eru á næsta leiti.

Árið 2021 viðurkenndi Boeing ábyrgð á slysinu í skiptum við að losna undan skaðabótagreiðslum. Lögfræðingar flugvélaframleiðandans höfðu haldið því fram að þar sem farþegar um borð í Ethiopian Airlines 302 hefðu látist samstundis væri enginn lagalegur grundvöllur fyrir skaðabótagreiðslum sem tengdust þjáningu samkvæmt lögum í Illinois.

Dómari málsins sagði aftur á móti að farþegar um borð í flugvélinni vissu að vélin var á þeim tíma að hrapa og að þau myndu öll deyja innan skamms. Andleg þjáning fórnarlambanna var því augljóslega mikil og höfðu lögfræðingar Boeing ekki sýnt fram á nein gögn sem mótmæltu þeirri niðurstöðu.

Boeing hefur ekki greint frá því hve mikið fyrirtækið né vátryggjendur þess þurfi að greiða vegna flugslyssins í Eþíópíu árið 2019 og einnig slysið sem átti sér stað í Indónesíu árið 2018. Alls létust 346 farþegar í báðum slysum.

Bob Clifford, lögfræðingur ættingjanna, sagði í kjölfar úrskurðar að hann væri vongóður um að seinni réttarhöldin myndu tryggja þess að Boeing taki fulla ábyrgð á flugslysinu og geri loks upp við vini og vandamenn fórnarlambanna.