Þremenningarnir þrír sem áður störfuðu hjá Glitni en sérstakur saksóknari ákærði vegna lánveitinga til félags Birkis Kristinssonar neituðu allir sök þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Mennirnir eru Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, miðlarinn Elmar Svavarsson og Magnús Arnar Arngrímsson, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Þeir eru ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot gegn lögum um ársreikninga í tengslum við veitingu 3,8 milljarða króna láns til félags Birkis sem á sama tíma var starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis.

Fram kemur á fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, að fjórði maðurinn hafi lagt fram kröfu um frávísun málsins og hann farið fram á að leyst yrði úr þeirri kröfu. Fréttavefurinn segir ennfremur að slitastjórn Glitnis hafi höfðað einkamál á hendur tveimur sakborninga vegna sama máls og krafið þá um bætur. Við þingfestinguna í dag lagði sérstakur saksóknari fram greinargerð og mótmæltu verjendur sakborninga henni.

Lánið var notað til kaupa á hlutabréfum í Glitni síðla árs 2007. Bankinn keypti bréfin til baka árið eftir.

Birkir, sem hagnaðist um 86 milljónir króna á viðskiptunum, er ákærður fyrir hlutdeild í svikunum.