Joe Lynam, viðskiptablaðamaður BBC sem hefur skrifað mikið um Icesave-ferlið í dag, segir á bloggsíðu sinni að oftar megi spyrja kjósendur álits í meiriháttar hagsmunamálum þjóða og láta stjórnmálamönnum ekki einum eftir að taka ákvarðanir í stórum málum.

Lynam vísar í pistli sínum til þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem boðað hefur verið til á Íslandi í kjölfar þess að forseti Íslands neitaði að staðfesta Icesave-lögin sem samþykkt voru á Alþingi. Segir hann að þetta opni augu kjósenda í öðrum löndum og það sé hinum þrjóska en varfærna forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, að þakka.

Tekur hann sem dæmi að breskir skattgreiðendur hafi varla verið spurðir um neitt síðan bresk stjórnvöld ákváðu að ganga í Evrópusambandið 1972. Milljónir manna hefðu viljað fá tækifæri til að kjósa og örugglega hafna Lissabon sáttmálanum.

Á Írlandi hafi verið haldnar margar þjóðaratkvæðagreiðslur um samninga Evrópusambandsins en engin um björgun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins né ríkisábyrgðir á bönkum, sem hafi gert þjóðina gjaldþrota. Lynam grunar að því hefði verið hafnað af írskum kjósendum.