Langvarandi óvissa um landa- og lögsögumörk á Heiðmerkursvæðinu valda því, að í dag sá borgarráð Reykjavíkur sér ekki fært að veita Kópavogsbæ leyfi fyrir lagningu vatnsleiðslu frá borholum á hinu umdeilda svæði um land Reykjavíkur til Kópavogs. Var niðurstaða borgarráðs í samræmi við álit borgarlögmanns, en þrír aðilar hafa gert tilkall til hins umdeilda lands. Vænta má að úrskurður Óbyggðanefndar um þjóðlendur, sem búist er við að falli síðar á árinu, skýri réttarstöðuna á svæðinu, en Óbyggðanefnd hefur einnig til skoðunar lögsögumörk sveitarfélaganna.

Árið 1991 boraði Vatnsveita Reykjavíkur, nú Orkuveita Reykjavíkur, nokkrar borholur í svokölluðum Vatnsendakrikum í Heiðmörk. Var tilkall fyrirtækisins til landsins byggt á eignarnámi frá 1949, en þá fékk Vatnsendabóndi greiddar bætur fyrir 689 hektara land. Engu að síður höfðaði hann lögbannsmál vegna borananna. Var þá nýtingu hætt en málið fellt niður. Nýverið seldu svo eigendur Vatnsenda Kópavogsbæ nýtingarrétt á hinu umdeilda landi og beiðni bæjarins um vatnslögn um land Reykjavíkur kemur í kjölfar þeirra kaupa. Auk þess gerði fjármálaráðuneytið kröfu til hluta hins umdeilda skika fyrir Óbyggðanefnd.

Í bókun sem samþykkt var samhljóða við afgreiðslu málsins í borgarráði í dag segir m.a.:

Það er hlutverk borgarráðs að standa vörð um sameiginlegar eignir borgarbúa, þar með taldar landareignir. Því getur borgarráð ekki fallist á lögn vatnsleiðslu Kópavogsbæjar frá svæði sem borgarráð álítur í eigu Reykvíkinga. Vænta má að úrskurður Óbyggðanefndar, sem búist er við síðar á árinu, varpi ljósi á réttarstöðu aðila á svæðinu. Borgarráð tekur því undir það álit borgarlögmanns að ekki beri að leyfa vatnslögnina fyrr en leyst hefur verið úr ágreiningi um eignarhald á Vatnsendakrikum.