Bandaríska fjármálaeftirlitið hyggst banna svokallaða “nakta skortsölu” á hlutabréfum fjármálafyrirtækja á borð við Freddie Mac, Fannie Mae og Lehman Brothers. Bannið mun taka gildi næstkomandi mánudag og samkvæmt Financial Times íhugar fjármálaeftirlitið að bannið taki til fleiri fyrirtækja í framtíðinni. Fréttirnar þykja til marks um hina mikla streitu og jafnvel örvæntingu sem nú ríkir á fjármálamörkuðum.

Hugtakið „nakin skortsala“ er notað yfir viðskiptahætti fjárfesta sem skortselja hlutabréf án þess að gera ráðstafanir til þess að fá þau lánuð. Núverandi löggjöf kveður á um að skortsalar þurfi að staðsetja þau hlutabréf sem þeir hyggjast fá að láni en að sama skapi þarf ekki samningur að liggja fyrir áður en skortsalan á sér stað. Þetta þýðir einfaldlega að fleiri en einn fjárfestir geta byggt skortsöluna á einu og sama hlutabréfinu. Óttast menn að þetta hafi átt sér stað og þar af leiðandi hafa margföldunaráhrifin knúið niður gengi hlutabréfa í ríkara mæli en innistæða var fyrir.

Nýju reglurnar munu kveða á um það að samningur um lán á hlutabréfum þurfi að liggja fyrir áður en skortsalan á sér stað.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .