Gengi hlutabréfa Apple, sem náði hæstu hæðum í vikubyrjun, tók sveig niður á við á þriðjudag eftir að tölvuþrjótur dreifði nektarmyndum af frægum konum sem teknar höfðu verið á snjallsíma og vistaðar í iCloud-skýi Apple. Gengi hlutabréfanna hafði við lokun markaða í gær fallið um 5% og stóð við dagslok í 98 dölum á hlut. Þegar gengið náði hæstu hæðum 1. september stóð það í 103,3 dölum á hlut. Fjárfestar, eigendur hlutabréfa Apple, hafa því fundið verulega fyrir lekanum því eign þeirra hefur rýrnað verulega í verði í vikunni eða um sem nemur 31 milljarði dala á þremur dögum, það er frá þriðjudegi og fram á fimmtudag. Þetta jafngildir rúmum 3.660 milljörðum íslenskra króna. Til að gefa einhverja mynd af þeim fjárhæðum sem nektarmyndirnar af stjörnunum hafa kostað eigendur hlutabréfa Apple þá nam landsframleiðsla Íslands á síðasta ári 1.786 milljörðum króna. Tapið jafngildir því landsframleiðslu Íslands í rétt rúm tvö ár.

Markaðsverðmæti Apple nam við lok markaða í gær 592,44 milljörðum dala eða sem nemur næstum 70 þúsund milljörðum króna.

Fjallað er um áhrif lekans á gengi hlutabréfa Apple á vef bandaríska dagblaðsins USA Today .

Breska blaðið The Mirror segir neikvæða umfjöllun um Apple og iCloud-þjónustuna ekki hafa dregið úr áhuga aðdáenda tækjabúnaðar Apple, sem bíði spenntir eftir nýjum iPhone-síma. Fastlega er gert ráð fyrir að hulunni verði svipt af símanum á kynningu Apple sem hefur verið boðuð á þriðjudag í næstu viku.