Uber hefur ráðið Nelson Chai sem fjármálastjóra, eftir ansi tímafrekt ráðningaferli. Ráðningin er liður í viðleitni framkvæmdastjórans Dara Khosrowshahi til að bæta ímynd félagsins, sem hefur átt undir högg að sækja, áður en félagið skráir sig á markað á næsta ári.

Chai hefur unnið hjá skráðum félögum í meira en áratug, og hefur mikla reynslu úr fjármálageiranum. Meðal annars var hann lengi hægri hönd John Thain, framkvæmdastjóra Merill Lynch, sem tók sæti í stjórn Uber nú í haust.

„John vissi að ég væri að leita að einhverju krefjandi, og stakk upp á því að ég hitti Dara yfir morgunmat,“ sagði Chai í samtali við Financial Times . Mennirnir hittust snemma í júní, og nokkrum vikum seinna var tekin ákvörðun um ráðninguna.

Khosrowshahi viðurkenndi í síðasta mánuði að ráðningaferlið hefði tekið lengri tíma en hann hefði viljað, en hann hefði nokkra frábæra umsækjendur í sigtinu.

Khosrowshahi tók við af stofnanda Uber, Travis Kalanick, í fyrrasumar, og hefur verið að endurskipuleggja fyrirtækið síðan þá. Staða fjármálastjóra hefur hinsvegar verið auð síðan 2015, sem hefur vakið upp ýmsar spurningar eftir að Khosrowshahi tilkynnti fyrirætlanir sínar um að skrá félagið á markað á seinni helmingi næsta árs.