*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 1. október 2021 10:44

Nema ný lönd í stjórnskipuninni

Óvissa er uppi sökum framkvæmdar kosninga. Viðbúið er að þingsetningarfundur verði talsvert frábrugðinn því sem vant er.

Jóhann Óli Eiðsson
Viðbúið er að þingsetning þetta kjörtímabilið verði nokkuð frábrugðin því sem vant er.
Haraldur Guðjónsson

Áhugafólk um stjórnskipunarrétt ætti að fá nóg fyrir sinn snúð næstu daga og vikur sökum þeirrar stöðu sem upp er komin vegna framkvæmdar þingkosninganna um liðna helgi. Mögulegt er að feta þurfi ótroðnar slóðir og fylla upp í réttinn þar sem lögin eru þögul um hvað gera skal.

Undanfarið hefur Viðskiptablaðið verið í samskiptum við sérfræðinga í stjórnskipunarrétti til að reyna að fá svar við sem flestum mögulegum „hvað ef“ spurningum. Það sem kemur fram í grein þessari er afrakstur þeirra samtala en sökum þess hve óljós og flókin staðan er eru svör þeirra ekki höfð beint eftir þeim.

Líkt og vant er morguninn eftir kjördag lágu úrslit fyrir en þau breyttust skyndilega þegar afráðið var að endurtelja atkvæðin í Norðvesturkjördæmi. Sú endurtalning leiddi í ljós að fyrri talning hafði verið röng en nýjar lokatölur höfðu þau áhrif að fimm frambjóðendur, sem höfðu vaknað sem þingmenn, lögðust til hvílu ekki sem þingmenn.

Athugasemdir hafa verið gerðar við vörslu kjörgagna fram að endurtalningu og framkvæmdin bæði verið kærð til kjörbréfanefndar þingsins sem og lögreglu. Landskjörstjórn kallaði eftir skýrslum frá yfirkjörstjórnum kjördæmanna sex til að fá á hreint hvernig framkvæmdinni er háttað á hverjum stað fyrir sig en treysti sér ekki til að fullyrða að framkvæmdin hefði verið í samræmi við lög í öllum kjördæmum.

Kjörbréfaboðsbréf

Vanalega hafa kosningar gengið nokkuð smurt fyrir sig. Kjósendur greiða sín atkvæði, þau eru talin, yfirkjörstjórnir senda landskjörstjórn niðurstöðurnar og landskjörstjórn gefur út kjörbréf til þingmanna. Nú þegar hefur verið brugðið út frá því fyrirkomulagi með endurtalningu atkvæða.

Á það hefur verið bent að í gildandi kosningalögum sé ekki að finna stafkrók um endurtalningu atkvæða og þeim sjónarmiðum haldið á lofti að sökum þess hafi endurtalningin verið ólögmæt. Sannarlega má færa rök fyrir því. Aftur á móti má líka færa fyrir því rök að af lögum um kosningar til Alþingis megi leiða fram meginreglu um að vilja kjósenda beri að hafa í heiðri. Hefur sú túlkun meðal annars verið lögð til grundvallar við mat á því hvort atkvæði skuli teljast gilt eða ógilt. Slík túlkun myndi færa rök fyrir því að rétt hafi verið að endurtelja þegar vankantar komu í ljós á fyrri talningu.

Sökum þessa stendur landskjörstjórn nú frammi fyrir því að þurfa að ákveða við hvorar tölurnar skuli miða þegar kemur að útgáfu kjörbréfa. 116 frambjóðendur, það er 58 aðalmenn og jafnmargir til vara, geta verið nokkuð vissir um að fá kjörbréf í hendurnar þaðan en tíu mögulegir aðalmenn þurfa að búa við óvissu eitthvað lengur.

Rétt er að geta þess að landskjörstjórn hefur ekkert úrskurðarvald um gildi kosninga þar sem það er, samkvæmt stjórnarskránni, í höndum Alþingis. Landskjörstjórn gefur aðeins út kjörbréfin, þau eru eins konar boðsbréf á þingsetningarfund, til 63 þingmanna og verður það að óbreyttu gert á morgun. Samhliða getur nefndin þó beint tilmælum til Alþingis um næstu skref sökum vankanta á framkvæmd kosninga. Níu manna nefnd þingmanna, svokölluð kjörbréfanefnd, sker síðan úr um gildi hvers og eins kjörbréfs auk þess að kveða upp endanlegan úrskurð um ágreiningsatkvæði sem kjörstjórnum tókst ekki að fá botn í. Þá getur nefndin einnig ógilt kosningu í einstökum kjördæmum eða á landinu í heild.

Afar fátítt er að til ágreinings komi á vettvangi kjörbréfanefndar. Það gerðist þó í kjölfar kosninganna 2003 en þá höfðu Vinstri græn listabókstafinn U. Mistök gerðu það að verkum að til að byrja með var auglýst að listabókstafur samtakanna væri V. Fjögur kjördæmi tóku utankjörfundaratkvæði, sem á stóð V, góð og gild sem atkvæði greidd VG en tvö þeirra tóku slíkt ekki í mál. Klofnaði kjörbréfanefnd í afstöðu sinni um það hvort skoða ætti framkvæmd kosninganna frekar en þá lá fyrir að atkvæðin höfðu engin áhrif haft á samsetningu þingsins. Staðan er hins vegar önnur nú.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.