Velferðarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að fara í tilraunaverkefni með að bjóða háskólanemum að leigja tvær þjónustuíbúðir í þjónustukjörnum fyrir aldraða. Sambærileg verkefni hafa reynst vel hjá öðrum þjóðum eins og Hollendingum segir í fréttatilkynningu frá borginni.

Með þessu verkefni er byggð brú milli kynslóða sem kemur námsmönnum vel bæði hvað húsnæðismál varðar og að eiga í jákvæðu samneyti við aldraða. Einnig eldri borgurum sem fá aukna félagslega virkni.

Byrjað verður að bjóða íbúðir í þjónustuíbúðakjörnum í Lönguhlíð 3 og í Norðurbrún 1 en búið er að kynna verkefnið þar við góðar undirtektir íbúa og ætlar notendaráð í Norðurbrún að taka þátt í ráðningaferlinu og fá að hafa skoðun á því hvernig háskólanemi verði valinn þangað til búsetu og starfa.

Skilyrði að vinni 40 stundir á mánuði fyrir húsfélagið

Leiga nemanna verður án þjónustugjalda og hússjóðs sem þýðir að þeir greiða innan við 50 þúsund í leigu á mánuði að teknu tilliti til húsnæðisstuðnings.  Skilyrði fyrir búsetu er 40 stunda vinnuframlag á mánuði sem greitt verður fyrir.

Nemarnir væru viðbót við það starfslið sem sinnir umönnun í þjónustuíbúðunum og framlag þeirra væri fyrst og fremst af félagslegum toga. Þeir verða hluti af samfélaginu í húsinu og gæti virkni þeirra falið í sér samneyti við íbúa á almennum nótum, þeir gætu boðið upp á námskeið sem miða að því að örva og efla íbúana í ýmis konar færni á borð við notkun samfélagsmiðla og snjalltækja eða í listsköpun.

Í virkni þarf að taka mið af þekkingu, áhugasviði og færni háskólanemanna og nýta þekkingu þeirra íbúum í hag en þar gæti líka verið átt við sagnfræði, bókmenntir og síðast en ekki síst virkni á sviði tónlistar.

Háskólanemar gætu einnig veitt einstaklingsmiðaðan félagslegan stuðning við ákveðna íbúa sem eru sérlega einmana og einangraðir og til þeirra sem síst geta tekið þátt í hópastarfi. Leiga yrði á svipuðum kjörum og hjá Félagsstofnun stúdenta en þar eru í dag um 500 manns á biðlista eftir sambærilegu húsnæði.