Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 45.418 haustið 2012 og fækkaði um 799 nemendur frá fyrra ári, eða 1,7%. Á vef Hagstofunnar kemur fram að það eru aðallega nemendum á framhaldsskólastigi sem fækkar. Alls sóttu 20.546 karlar nám og 24.872 konur. Körlum við nám fækkaði um 242 frá fyrra ári (-1,9%) en konum um 451 (-3,4%).

Á framhaldsskólastigi stunduðu 25.460 nemendur nám og fækkaði um 2,6% frá fyrra ári. Fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi, sem varð á milli áranna 2010 og 2011 gekk því að miklu leyti til baka. Á viðbótarstigi voru 869 nemendur og fækkaði um 9,9%. Á háskólastigi í heild voru 19.089 nemendur og fækkaði um 0,1% frá haustinu 2011.

Ungmennum á aldrinum 19 og 20 ára í skóla fækkar
Alls stunduðu 73,5% 19 ára ungmenna nám og 53,6% 20 ára, sem er talsverð fækkun frá fyrra ári. Haustið 2011 sóttu 75,2% 19 ára og 58,0% 20 ára nám og minnkaði skólasókn um 1,7 prósentustig hjá 19 ára og 4,4 prósentustig hjá 20 ára nemendum. Fækkun varð bæði hjá körlum og konum.

Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2012 var 95,5%, sem er fjölgun um 0,3 prósentustig frá hausti 2011. Stúlkum fjölgaði um eitt prósentustig en drengjum fækkaði um 0,3 prósentustig frá hausti 2011. Hlutfallslega flestir 16 ára unglingar sóttu skóla á Austurlandi eða 99,5%, en fæstir á Suðurnesjum, 92,5%.

Nemendur í starfsnámi hafa ekki verið færri í sextán ár
Rúmlega tveir af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi stunduðu nám á bóknámsbrautum haustið 2012 en 33,0% voru í starfsnámi. Hlutfall nemenda í starfsnámi lækkaði frá síðasta ári, þegar það var 33,6% og hefur ekki verið lægra síðan núverandi flokkun menntunar var tekin upp árið 1997. Hlutfall nemenda í starfsnámi var mun hærra meðal karla en kvenna, eða 38,2% á móti 27,8% hjá konum.

Flestir háskólanemar í félagsvísindum
Flestir háskólanemendur haustið 2012 stunduðu nám í greinum sem falla undir félagsvísindi, viðskipta- og lögfræði, 36,6% nemenda. Næstflestir, eða 15,2% , voru nemendur á námssviðum sem falla undir hugvísindi og listir. Til samanburðar lærðu 10,3% nemenda raunvísindi, stærðfræði eða tölvunarfræði og 8,7% nemenda lögðu stund á nám í verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð.