Haustið 2015 voru 43.760 nemendur í grunnskólum landsins og fjölgaði þeim um 624, eða 1,4% frá fyrra ári. Hafa nemendur í grunnskólum hér á landi ekki verið fleiri síðan haustið 2007.

Auk þess stunduðu 94 börn nám í bekk fyrir 5 ára börn, en það eru 20 færri börn en árið 2014.

Nemendum í einkaskólum fækkar

Á skólaárinu 2015-2016 störfuðu alls 168 grunnskólar á landinu, sem er fjölgun um einn skóla frá árinu á undan. Grunnskólunum hefur hins vegar farið fækkandi undanfarin ár vegna sameininga og hefur þeim fækkað um 28 skóla frá árinu 1998.

Voru einkaskólarnir 11 talsins og var heildarfjöldi nemenda í þeim 1.072 haustið 2015. Þar eru nemendur í fimm ára bekk undanskildnir. Fækkaði nemendum í einkaskólum 62 frá fyrra skólaári eða um 5,5%.

Sérskólar voru þrír í landinu, og stunduðu 161 nemandi nám í þeim, sem er lítið eitt fleiri en undanfarin ár.