Háskólinn í Reykjavík og Mentis Software hafa gert með sér samstarfssamning sem felur í sér að nemendur og kennarar við skólann fá ókeypis aðgang að hugbúnaðinum Markaðsvaktin og Genius Excel. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.

Um er að ræða hugbúnað sem miðlar jafnt sögulegum og rauntímagögnum af hluta- og skuldabréfamarkaði OMX Nordic Exchange kauphallarinnar.

„Fyrir tilstilli samningsins geta nemendur og kennarar við Háskólann í Reykjavík því nýtt verðmætar upplýsingar af íslenskum og norrænum hluta- og skuldabréfamarkaði við úrvinnslu raunhæfra verkefna, en hingað til hefur aðgengi þeirra að slíkum upplýsingum verið takmarkað. Auk þess fá nemendur þjálfun í notkun hugbúnaðar sem sérstaklega er þróaður með hliðsjón af þörfum íslensks fjármálamarkaðar og er í notkun hjá öllum viðskiptabönkunum og flestum fjármálafyrirtækjum á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

„Þetta eru mikil og góð tíðindi fyrir alla nemendur og kennara Háskólans í Reykjavík“, segir Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík. „Skólinn hefur frá upphafi lagt mikinn metnað í að bjóða upp á hagnýtt, gagnvirkt og alþjóðlegt nám sem miðar að því að undirbúa nemendur sína sem allra best fyrir framtíðina. Þetta er tvímælalaust enn eitt sporið í þá áttina. Þetta tengir nemendur okkar og kennara enn betur við atvinnulífið sem er einn af hornsteinum HR og gerir þau enn hæfari ti að nýta þekkingu sína í alþjóðlegu umhverfi“