Háskólinn í Reykjavík og Teris undirrituðu nýlega samstarfssamning sem felur í sér að nemendur Háskólans í Reykjavík fá endurgjaldslaust afnotarétt af hugbúnaðinum Markaðsvakt Teris.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Teris en Markaðsvaktin er notuð af nær öllum fjármálafyrirtækjum á Íslandi.

„Með þessu vill Teris leggja sín lóð á vogarskálarnar við að undirbúa nemendur betur til að takast á við þau verkefni sem þeirra bíða eftir nám,“ segir í tilkynningunni.

„Með Markaðsvaktinni fæst fullkomin yfirsýn yfir tilboð og viðskipti með hlutabréf og skuldabréf í norrænu kauphöllunum. Markaðsvaktin er með fjölda greiningartóla sem hjálpa við ákvarðanatöku til dæmis við kaup eða sölu verðbréfa.“