Keppnislið frá MBA-náminu í Háskólanum í Reykjavík vann til bronsverðlauna í alþjóðlegri samkeppni í gerð viðskiptaáætlana sem fram fór í Bangkok á Taílandi um helgina. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá skólanum.

Yfir 100 af bestu viðskiptaháskólum heims sendu lið í  keppnina en í janúar sl. var lið MBA í HR valið eitt af 16 liðum til að fara til Bangkok í undanúrslit. Í byrjun vikunnar lagði liðið land undir fót. Liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum í gær og í úrslitum í dag hafnaði liðið í 3. – 4. sæti, sem verður að teljast stórkostlegur árangur.

Þau lið sem komust í undanúrslit voru:

•         Videntifier frá Háskólanum í Reykjavík, Íslandi

•         HerbleMed frá Chiangmai Unviersity, Tælandi

•         PhotonWave Technologies frá Indian Business School, Indlandi

•         Immutel frá Aarhus School of Business, Danmörku

Það var svo Viðskiptaháskólinn í Árósum sem hampaði gullverðlaunum í keppninni og í öðru sæti varð lið frá Indian Business School.

Flestir háskólarnir sem taka þátt eru sigurvegarar frá forkeppni í sínu heimalandi. Sextán lið komust í gegnum fyrstu hindrun og voru valin til að keppa í Bangkok. Lið Háskólans í Reykjavík lagði lið frá Bandaríkjunum, Suður-Kóreu og Tælandi á leið sinni í undanúrslit. Á meðal þeirra sem ekki komust í úrslit í ár eru Kellogg School of Management frá Bandaríkjunum, Warwick Business School frá Bretlandi og Peking University frá Kína sem sigraði keppnina á síðasta ári. Viðskiptaáætlun liðs MBA-nemenda í HR byggir á nýtingu tækninýjunga sem er þróunarvinna nemenda í tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og unnið er að í frumkvöðlafyrirtæki innan Klaks, nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins.

Einn keppendanna, Sólveig Lilja Einarsdóttir, segir að það hafi verið frábær upplifun að heyra endurgjöf alþjóðlegu dómaranna: „Endurgjöfin var mjög jákvæð og mikið betri en við höfðum þorað að vona því hér eigast við lið sem hafa unnið landskeppnir og eru gríðarlega sterk. Það er gaman að finna hvernig allt það sem við höfum farið í gegnum í MBA-náminu nýtist beint og gerir okkur mögulegt að takast á við allar þær spurningar sem er beint til okkar um viðskiptaáætlunina,” segir Sólveig Lilja.