Á morgun föstudag 5. apríl og laugardaginn 6. apríl, munu um 550 ungir frumkvöðlar kynna og selja vörur sínar á Vörumessu Ungra frumkvöðla í Smáralindinni.

„Fyrirtækjasmiðja Ungra frumkvöðla hefur verið að stækka ár frá ári, en í ár voru 120 fyrirtæki stofnuð, af ýmsum stærðum og gerðum, og munu þau kynna vörur sínar í Smáralindinni um helgina,“ segir Petra Bragadóttir, framkvæmastjóri Ungra frumkvöðla á Íslandi, eða JA Iceland. Hún segir þetta vera stærsta viðburðinn til þessa, en 550 nemendur taka nú þátt í keppninni úr 13 framhaldsskólum á landinu, en á tveimur árum hefur þátttakan aukist úr 312 nemendum.

Junior Achievement eru í ár aldargömul félagssamtök, stofnuð í Bandaríkjunum en verkefni samtakanna snerta nú meira en 10 milljónir nemenda á hverju ári í um 122 löndum. Þar af yfir 4 milljónir nemenda í 39 Evrópulöndum, en þau hafa starfað nánast samfleytt hér á landi frá árinu 2002. Aðaláherslan í starfseminni er að undirbúa nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi hjá ungu fólki með aukinni viðskiptamenntun og fjármálalæsi, til að auka færni þeirra til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar,

„Á Vörumessunni verður verðlaunað fyrir fallegasta básinn, en síðan 30. apríl næstkomandi í Arion banka verðum við með uppskeruhátíð en þangað eru tuttugu fyrirtæki eru valin úr hópnum til að vera með kynningu fyrir dómurum og gestum og þá verða hinar tíu viðurkenningarnar afhentar, þar með talið aðalverðlaunin sem er að fara sem fulltrúi Íslands í Evrópukeppnina í Lille í Frakklandi í byrjun júlí,“ segir Petra sem segir verkefnið gott dæmi um vel heppnað samstarf skóla og atvinnulífs, hvers stuðningur sé ómetanlegur.

„Þessi keppni byrjaði núna 11. janúar, með upphafsfundinum Sparkinu í Háskóla Reykjavíkur. Keppnin felst í því að nemendurnir stofna fyrirtæki frá grunni, fyrst með því að koma sér saman um ákveðna hugmynd, og vinna síðan að henni. Þau framleiða vöruna, eða koma þjónustunni af stað sjálf, sem þau síðan selja. Það er alveg ótrúlegt að sjá hvað mikið er komið á svona stuttum tíma, og eru þarna margar mjög skemmtilegar hugmyndir.“

Einnig er verðlaunað fyrir áhugaverðustu nýsköpunina, bestu fjármálalausnina, bestu haftengdu starfsemina, kallað sjó-bissnessinn, samfélagslega nýsköpun, bestu hönnunina, bestu tæknilausnina, umhverfisvænustu lausnina, bestu markaðsmálin og besta matvælafyrirtækið.

Verkefnið vendipunktur í lífinu

Petra Bragadóttir hefur lengi verið viðloðandi starf JA á Íslandi, fyrst sem kennari, svo sem stjórnarmaður, en í sumar tók hún við sem framkvæmdastjóri. Segir hún þá sem tekið hafa þátt í verkefnum samtakanna öðlast gríðarlega reynslu og aukið sjálfstraust. „Ég hef fengið bréf þar sem bæði foreldrar hafa þakkað fyrir verkefnið og sagt það hafa komið börnum sínum í gegnum skóla, og frá nemendunum sjálfum. Ein stúlka sem var með lesblindu sagði þetta hafa verið vendipunkt í sínu lífi því þarna sá hún styrkleika sína og að hún gæti verið skapandi,“ segir Petra.

„Mörgum nemendum finnst þetta vera það skemmtilegasta og lærdómríkasta sem þau hafa gert í framhaldsskólanum, og þau hafi öðlast dýrmæta reynslu sem nýtist þeim út í lífið.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Verðmat á HB Granda
  • Hlutdeild Icelandair af íslenska flugmarkaðnum
  • Arðbærasta fyrirtæki heims undirbýr hlutafjárútboð
  • Skúli Mogensens svarar vangaveltum um eignarhald á flugvélum
  • Farið er yfir hve hratt ferðaþjónustan og atvinnumarkaðurinn jafni sig á falli Wow air
  • Sigurjón Kristjánsson forstjóri og stofnandi Fusion Health ræðir um tækifærin í bættri svefnheilsu
  • Úttekt um umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra og breytingar í bankanum
  • Framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, Erling Freyr Guðmundsson er í ítarlegu viðtali
  • Tækifæri fyrir sprotafyrirtæki í að skrá sig á markað voru könnuð í Svíþjóðarferð
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um stríð og frið á vinnumarkaði
  • Óðinn skrifar um ríkisaðstoð til einkafyrirtækja