Nemendur úr Tjarnarskóla voru sigursælir í Raunveruleik Landsbankans fyrir 10. bekk skólaárið 2012-2013. Raunveruleikurinn er gagnvirkur hermileikur og hannaður sem fjármála- og neytendafræðsla fyrir efstu bekki grunnskóla, að því er kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.

Smiðjan í Tjarnarskóla náði bestum árangri í bekkjarkeppninni. Í keppni einstaklinga bar Aníta Sif Eiríksdóttir í Tjarnarskóla sigur úr býtum, Daníel Bergmann Sveinbjörnsson einnig í Tjarnarskóla hreppti annað sætið og Helena Hrönn Haraldsdóttir nemandi í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði varð í þriðja sæti. Alls tóku þátt rúmlega 1.000 nemendur úr 42 skólum um land allt. Raunveruleikurinn hófst þann 15. október sl. og stóð yfir í fjórar vikur.

Í Raunveruleiknum fá nemendur að kynnast þeim ákvörðunum sem einstaklingar þurfa að taka í lífinu, s.s. að stunda nám, leita sér að vinnu, leitast við að ná endum saman á þeim launum sem bjóðast á almennum vinnumarkaði og bregðast við því sem á daga þeirra drífur. Í Raunveruleiknum eru mældar ýmsar hagstærðir í samfélaginu líkt og um alvöru væri að ræða, t.d. verðbólga, atvinnuleysi og sparnaður.

Meðaltekjur hafa aukist milli ára

Í Raunveruleiknum fæddust 1.913 börn á spilunartímabilinu og hefur barnsfæðingum fækkað eftir að boðið var upp á að kaupa getnaðarvarnir árið 2011.

Meðallaun í samfélagi Raunveruleiksins voru 389.086 kr. samanborið við 359.752 kr. árið áður og voru strákar örlítið tekjuhærri með tæp 392.000 kr. í tekjur að meðaltali en stelpur með rúmar 385.000 kr.

Vinsælasta varan sem keppendur leiksins gátu keypt var lottómiði en keyptir voru 21.211 miðar á spilunartímabilinu. Getnaðarvörn og kettlingur voru einnig eftirsóknarverðar vörur.

Í upphafi leiks byrjar leikmaður sem 20 ára ungmenni á leið út í lífið eftir framhaldsskóla. Hann fær ákveðna byrjunarupphæð á bankareikning en líf hans er að öðru leyti óskrifað blað. Eftir að hafa mótað persónu sína, útlit, nafn og einkenni þarf að skapa umhverfi persónunnar og ákveða hvernig hún ver fjármunum sínum, hvaða nám er valið og hvaða vinna.