Háskólinn á Bifröst hefur undanfarið hitt fyrirtæki á Vesturlandi og boðið þeim að gera fyrir þau rekstraráætlanir. Vilhjálmur Egilsson rektor segir að verkefnið sé styrkt af sveitarfélögunum á Austurlandi og sé gert í samstarfi við Arion banka og Landsbankann.

„Við höfum haldið fundi með forsvarsmönnum fyrirtækja og verkefnið gengur út á að gera rekstraráætlanir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Nemendur taka þetta að sér í sex eininga námskeiðum fyrir og eftir áramót. Til viðbótar við að gera rekstraráætlanir fyrir árin 2013 og 2014 er líka farið í ýmsa lögfræðilega þætti. Á haustönninni er sérstaklega farið í virðisaukaskattskil og greiningu á launakostnaði og á vormisserinu verður farið í ráðningar- og viðskiptasamninga og samskipti við eftirlitsstofnanir. Við erum mjög þakklát þeim fyrirtækjum sem eru að taka þátt í þessu, en þau eru nú komin vel á þriðja tug og fleiri eru að bætast í hópinn. Þetta er gott dæmi um það hvernig háskólar og fyrirtæki geta unnið saman.“