Blue Water Shipping hefur gert fimm ára samning við Nesfrakt um allan innanlandsflutning. Samningurinn felur í sér að Nesfrakt sjái um dreifingu á landsvísu á öllum vörum sem koma með Norrænu til Seyðisfjarðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nesfrakt en þar kemur einnig fram að verðmæti samningsins er rúmur milljarður króna. Hann er til fimm ára með möguleika á framlengingu að þeim tíma liðnum.

„Þetta er gríðarlega mikilvægur samningur fyrir Nesfrakt og mikil viðurkenning fyrir fyrirtækið en Nesfrakt hefur verið í miklum vexti eftir hrun,“ segir Arnar Þór Ólafsson, framkvæmdastjóri Nesfrakt, í tilkynningunni.

Þá kemur fram að Nesfrakt býður uppá daglegar vöruferðir frá Reykjavík á flesta staði á landinu.