Svissneska matvæla- og drykkjarvörufyrirtækið Nestlé hefur komist að samkomulagi við bandaríska kaffiframleiðandann Starbucks um að selja kaffi fyrirtækisins utan kaffihúsa félagsins. Nestlé sér þannig um smásölu kaffisins, sem hefur það meðal annars í för með sér að Nespressokaffiunnendur geta notað Starbucks kaffi í náinni framtíð. Nestlé borgar 7,1 milljarð bandaríkjadala, ríflega 700 milljarða íslenskra króna, fyrir að selja kaffið.

Nestlé býst við að sala á Starbucks kaffi skili fyrirtækinu um tveimur milljörðum dala í tekjur. Í frétt á vef BBC segir að þrátt fyrir þetta fái Nestlé ekki að merkja sér þær vörur Starbucks sem það selur. 500 starfsmenn Starbucks munu í kjölfarið flytjast yfir til Nestlé en halda þrátt fyrir það kyrru fyrir í Seattle, þar sem höfuðstöðvar Starbucks eru.