Svissneska fyrirtækið Nestlé tapaði máli fyrir þýskum dómstólum þar sem fyrirtækið fór fram á að kaffihylki annarra fyrirtækja í Nespresso vélar Nestlé yrðu tekin úr sölu. Dómsmálið var höfðað gegn Ethical Coffee Company en stofnandi þess, Jean-Paul Gaillard, er fyrrverandi forstjóri Nespresso. Fjallað er um málið í frétt Financial Times.

Dómstóllinn í Düsseldorf sló því föstu að neytendur sem kaua Nespresso vél eigi rétt á að ákveða hvernig vélin er notuð og þar með talið að nota kaffihylki frá öðrum framleiðendum.

Gaillard líkir hegðun Nestlé við framleiðendur prentara sem reyndu að koma í veg fyrir að önnur fyrirtæki myndu framleiða prenthylki í prentara. Þannig reyni framleiðendur að viðhalda einokunarstöðu á meðan önnur fyrirtæki reyna að skora þau á hólm. „Þetta er frjálsi markaðurinn að verki og það er gott fyrir neytendur," segir Gaillard meðal annars.

Forsvarsmenn Nestlé gáfu það út að þeir væru svekktir með niðurstöðuna en að dómsmálum yrði haldið áfram. Þar á meðal er um að ræða mál gegn fyrirtækjum í Sviss, Frakklandi, Hollandi og Belgíu.