Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur verið ákærður fyrir mútuþægni, mútugreiðslur og spillingu í þremur málum. Ákærandi er ríkissaksóknari landsins. BBC greinir frá.

Ákæra málsins er þríþætt en Netanyahu er sagður hafa tekið við og útdeilt gjöfum með það að marki að fá jákvæða fjölmiðlaumfjöllun. Forsætisráðherrann neitar sök og segist vera fórnarlamb nornaveiða af hálfu vinstrimanna og fjölmiðla. Hann hefur neitað að segja af sér embætti.

Talsverð ólga hefur verið í ísraelskum stjórnmálum það sem af er ári. Kosið var til þings í apríl og september en þrátt fyrir það hefur ekki tekist að mynda ríkisstjórn. Núverandi stjórnarandstæðingar reyndu nýverið að mynda starfhæfa ríkisstjórn en þær viðræður fóru út um þúfur.

Forseti landsins, Reuven Rivlin, hefur gefið flokkum þriggja vikna frest til að koma sér saman um nýjan forsætisráðherra. Ella verði kosið til þings í þriðja sinn á árinu.