Tap hugbúnaðarfyrirtækisins NetApp jókst um 75,5% á síðasta ári, úr tæplega 108 milljónum króna, í 189 milljónir króna. Á sama tíma var nærri þreföldun tekna hjá félaginu, eða um 197%, eða úr 265 milljónum í 787 milljónir króna.

Hins vegar jukust rekstrargjöldin um 218%, eða úr 366 milljónum króna í tæplega 2,2 milljarða króna. Þar af jukust laun og launatengd gjöld félagsins um 190% milli ára, úr 332 milljónum króna í 962 milljónir króna, en hjá félaginu eru 47 starfsmenn í fullu starfi.

Rekstrartap fyrir afskriftir, EBITDA, jókst á sama tíma um 274%, nálega fjórfalt, eða úr 101 milljón króna í 378 milljónir króna. Rekstrarafkoma fyrir skatta, EBIT fór hins vegar úr því að vera jákvæð um 102 milljónir króna í að vera neikvæð um 382 milljónir króna.

Eigið fé jókst

Eigið fé félagsins jókst á sama tíma um 10,2%, úr 703 milljónum króna í 774,6 milljónir króna, meðan skuldirnar jukust um 116%, úr 95 milljónum í 205 milljónir. Þar með jukust eignir félagsins um 22,7%, úr 798 milljónum króna í 979 milljónir og eiginfjárhlutfallið lækkaði úr 88,1% í 79,1%.

Jón Þorgrímur Stefánsson er forstjóri NetApp á Íslandi, en Stephen Peter Faulkner og Gos Hein Van De Wouw eru stjórnarmenn félagsins sem er í eigu erlenda félagsins Netapp BV.