Netárás á Arion banka í síðustu viku hafði áhrif á bæði greiðsluþjónustu og auðkennisþjónustu bankans í um klukkutíma. Þó árásin hafi valdið töfum hafi allar varnir haldið að sögn talsmanns bankans.

Póst- og fjarskiptastofnun segir að svokölluð dreifð álagsárás, svokölluð DDos árás, hafi verið gerð á aðila innan fjármálageirans á mánudaginn 9. nóvember síðastliðinn.

Haraldur Guðni Eiðsson upplýsingafulltrúi Arion banka hefur staðfest við Viðskiptablaðið að árásin hafi beinst að bankanum og valdið nokkrum töfum hjá viðskiptavinum í netbanka og appi bankans, en allar varnir hafi haldið.

„Við erum með mörg lög af vörnum sem héldu og þrátt fyrir að álagsárásin hafi beinst gegn bankanum þá má segja að varnir bankans hafi sannað sig og engin gögn eða fjármunir verið í hættu,“ segir Haraldur. „Við látum alltaf viðskiptavini vita ef óeðlilegar tafir eru á notkun heimabankans eða appsins, en í þetta sinni vörðu tafirnar í um klukkutíma.“

Samkvæmt Póst - og fjarskiptastofnun hafði árásin afleiðingar víðar en hjá bankanum, það er einnig hjá fjarskiptafélögunum. Það kom til vegna bilunar í erlendri varnarþjónustu sem alla jafna hefði dregið mjög úr stærð árásarinnar.

Árásin er sögð hafa haft víðtæk áhrif og hríslast um fjarskiptainnviði landsins. Kom hún einnig niður á  greiðsluþjónustu og auðkennisþjónustu hér á landi. Með góðri samvinnu hafi þó tekist að lágmarka skaðann eins og hægt var.

CERT-IS, sem er netöryggissveit á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar er nú sögð vinna með fjarskiptafélögunum og fjármálageiranum að greiningu á árásinni og mótvægisaðgerðum til þess að minnka möguleg áhrif á lykilinnviði við slíkar aðstæður í framtíðinni.