*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 3. september 2021 18:40

Netárás á SaltPay

SaltPay segir að ekkert bendi til þess að árásaraðilarnir hafi komist inn fyrir varnir fyrirtækisins eða getað nálgast nein gögn.

Ritstjórn
Reynir Grétarsson er forstjóri SaltPay
Aðsend mynd

Netárás var gerð á SaltPay síðdegis í dag sem varð til þess að talsverðar truflanir hafa orðið á þjónustu fyrirtækisins. Vel gangi þó að bregðast við árásinni og búist er við að full þjónusta verði komin á að nýju innan skamms, að því er kemur fram í fréttatilkynningu greiðslumiðlunarfyrirtækisins.

Um var að ræða svokallaða dreifða álagsárás eða DDoS-árás sem þýðir að netkerfi fyrirtækisins fær tímabundið yfir sig gríðarlegan fjölda beiðna úr mörgum ólíkum áttum. 

„SaltPay biður viðskiptavini sína velvirðingar á þeim truflunum sem árásin hefur valdið í dag. Fyrirtækið hyggst nýta reynsluna sem fékkst af því að verjast árásinni í dag til að efla enn frekar sjálfvirk eftirlitskerfi sín og þannig koma í veg fyrir að sambærilegar árásir valdi truflun á þjónustu í framtíðinni,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins.

SaltPay hefur tilkynnt netárásina til CERT-ÍS, netöryggissveitar Fjarskiptastofu. Fleiri íslensk fyrirtæki hafi orðið fyrir samskonar árásum að undanförnu og upplýsingar um aðferðir árásáraðilana geta mögulega nýst öðrum fyrirtækjum en CERT-ÍS hefur það hlutverk að samhæfa íslenskar varnir gegn tölvuárásum sem þessum. Þá vill SaltPay að lokum taka fram að ekkert bendir til þess að árásaraðilarnir hafi komist inn fyrir varnir fyrirtækisins eða hafi getað nálgast nein gögn.

Stikkorð: netárás SaltPay