*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 6. febrúar 2015 15:09

Netauglýsingar taka fram úr sjónvarpsauglýsingum

Á aðeins þremur árum hefur heildarvelta netauglýsinga farið úr 7% í 26% hjá Pipar / TBWA.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Auglýsingastofan Pipar / TBWA hefur tekið saman heildarveltu og skiptingu auglýsinga á milli miðla fyrir árið 2014 hjá fyrirtæki. Þar kemur fram að miklar breytingar hafi orðið í skiptingu birtingafjár síðustu ár þar sem hlutfall netmiðla hefur aukist hratt. Fyrir aðeins þremur árum fóru um 7% af heildarveltu í netauglýsingar. Í dag er hlutfallið 26% og í fyrsta sinn hafa netmiðlar tekið fram úr sjónvarpi í auglýsingabirtingum.

„Þetta er í takti við það sem er að gerast úti í heimi, og þetta er reyndar að gerast enn hraðar þar. Bretar spá því til dæmis að þeir fari í 50% á þessu ári, á meðan við stöndum í 26%. Þá er ég bara að tala um veltuna hjá okkur sem telur 770 milljónir króna í heildina,“ segir Rannveig Tryggvadóttir, birtingastjóri hjá Pipar / TBWA, í samtali við Viðskiptablaðið.

Dagblöð enn stærsti miðillinn

Samkvæmt tölunum eru dagblöð stærsti miðillinn með 29% heildarveltu. Netmiðlar eru í öðru sæti með 26% og sjónvarpsauglýsingar koma í þriðja sæti með 23%. Ísland sker sig frá helstu samanburðarlöndum að því leyti að almennt er sjónvarp stærsti miðillinn erlendis og dagblöð sjaldnast jafn vinsæll miðill og hérlendis.

„Þótt við séum eftirá erum við að vaxa mjög hratt og við eigum að líkindum eftir að fara enn hærra á komandi árum og endum nálægt því sem gengur og gerist í samanburðarlöndunum,“ segir Rannveig.

Innlendar vefsíður með 70% allra netbirtinga

Upplýsingar um skiptingu birtingafjár á Íslandi hafa verið vandfundnar og því hefur illa verið hægt að fylgjast nægilega vel með þessari þróun hér á landi. PIPAR\MEDIA kveðst vilja auka gegnsæi á íslenskum auglýsingamarkaði og birtir þess vegna upplýsingar um skiptingu birtingafjár á milli miðla.

Innlendar vefsíður eru rúmlega 70% allra netbirtinga og erlendar vefsíður á borð við Facebook og Google eru að nálgast 30% af heildinni en sá hluti hefur verið mjög rísandi á undanförnum árum – þó þær komi ekki í staðinn fyrir birtingar á innlendum vefsíðum. Þess ber þó einnig að geta að hlutfall erlendra vefsíðna gæti verið hærra en gengur og gerist vegna birtinga fyrir hönd ferðaþjónustufyrirtækja.