Að minnsta kosti 8.000 danskir netbankanotendur komust ekki inn á reikninga sína fyrir helgina. Ástæðan var sú að bankarnir lokuðu aðganginum fyrirvaralaust vegna hættu á árás þjófa með hjálp svokallaðra trójuhesta eða orma sem geta nælt sér í aðgangsorð viðskiptavinanna og millifært peninga yfir á eigin reikninga.

Ástæðan fyrir vandræðunum núna er að hluta til sú, að sögn Ekstrabladet í Danmörku, að á síðasta ári varð uppvíst um galla í Microsoft stýrikerfinu sem bauð upp á það að óprúttnir aðilar misnotuðu hann í eigin þágu. Notendurnir voru varaðir við í október sl. og beðnir um að uppfæra kerfið og verja sig en margir létu það hjá líða. Þeir sem það ekki gerðu eru í hættu fyrir þjófunum.

Öll innbrot í netbanka gerast þannig að lögð eru njósnaforrit inn á tölvur notendanna sem veita þjófunum aðgang að öllu sem á tölvunni er, þar á meðal aðgangsorðum, myndum, pósthólfum og netbönkum.