Netflix myndefnisveitan bandaríska ætlar sér stóra hluti í framleiðslu á sjónvarpsþáttum. Í samtali við GQ tímaritið segir dagskrárstjóri Netflix, Ted Sarandos, að fyrirtækið ætli sér að „verða HBO áður en HBO getur orðið að okkur.“ Með þessu á Sarandos við að Netflix ætli að ná HBO í framleiðslu á eigin sjónvarpsefni áður en HBO geti náð Netflix í dreifingu á sjónvarpsefni yfir netið.

Netflix hefur það að markmiði að framleiða að minnsta kosti fimm sjónvarpsseríur á ári frá og með þessu ári og svo virðist sem það markmið náist í ár að minnsta kosti. Netflix tekur t.a.m. þátt í framleiðslukostnaði á næstu seríu af norsk-bandarísku þáttaröðinni Lilyhammer, en Lilyhammer var sýnd hjá Netflix í Bandaríkjunum. Netflix hefur . Þá eru aðeins nokkrir dagar í frumsýningu á seríunni House of Cards og svo styttist í nýja seríu af Arrested Development þáttaröðinni. Einnig má nefna hryllingsþáttaröðina Hemlock Grove, en Eli Roth er framleiðandi þáttaraðarinnar.

Sarandos segir að Netflix sé sérlega aðlaðandi samstarfsaðili fyrir framleiðendur sjónvarpsefnis. Fyrirtækið geri ekki kröfu um að þeir geri tilraunaþátt, eða svokallaðan „pilot“ áður en þáttaröð er samþykkt. Þvert á móti gerir fyrirtækið samninga um gerð heilla þáttaraða og þá fá framleiðendurnir nægt fé til að gera þættina almennilega. Til dæmis var framleiðslukostnaður House of Cards 100 milljónir dala og kom féð allt frá Netflix.