Vöxtur Netflix fór enn og aftur fram úr væntingum fyrirtækisins sjálfs og markaðarins að því er The Wall Street Journal greinir frá . Streymisþjónustan bætti við sig 7,4 milljónum notenda á fyrsta ársfjórðungi ársins en þar af voru tæplega 5,5 milljónir utan Bandaríkjanna en búist hafði verið við fjölgun notenda um 6,5 milljónir. Heildarfjöldi áskrifta félagsins er nú rétt tæplega 119 milljónir.

Hagnaður félagsins nam 290 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi eða sem samsvarar 28,8 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Það er aukning um 63% frá fyrra ári þegar hagnaðurinn nam 178 milljónum dala. Þá jukust tekjur félagsins um 40%.

Netflix áætlar að bjóða upp 700 þáttaraðir og kvikmyndir sem félagið framleiðir sjálft í ár og ætlar sér að verja 8 milljörðum dala í efnisgerð á árinu eða sem samsvarar um 793,3 milljörðum króna.

Eftir að Netlix greindi frá upgjörinu hækkuðu hlutir félagsins um tæplega 5% í virði en það sem af er ári hafa hlutir félagsins hækkað um 60%.

Á öðrum ársfjórðungi áætlar félagið að það muni bæta við sig 6,2 milljónum notenda en greinendur búast við að félagið bæti við sig 5,6 milljónum notenda.