Bandaríska streymiþjónustan Netflix mun hækka verð á þjónustu sinni á komandi árum samhliða því að auka úrval á frumsömdu efni. Þetta kemur fram á vef Independent .

Þar kemur fram að Reed Hastings, framkvæmdastjóri Netflix, hafi sagt á fjárfestakynningu að þjónusta fyrirtækisins yrði bætt töluvert á næstu árum og notendur þyrftu að greiða hærra verð fyrir betri þjónustu. Hins vegar munu verðhækkanirnar ekki eiga sér stað á næstu þremur mánuðum.

Einnig kom fram í máli hans að fyrirtækið myndi hugsanlega gera það erfiðara fyrir notendur að deila lykilorði sínu með öðrum. Þannig yrði komið í veg fyrir að margir notuðu sama aðganginn, en með núverandi kerfi geta allt að fjórir notað þjónustuna á einum aðgangi.