Sam film hefur samið við Netflix um löglega dreifingu á efni streymiþjónustunnar á Íslandi. Árni Samúelsson forstjóri Sam film staðfestir þetta í samtali við Rúv en hann segir að opnað verði fyrir þjónustuna seint á árinu.

Hingað til hefur þjónusta Netflix verið ólögleg hér á landi en hægt hefur verið að nálgast hana með krókaleiðum. Í könnun sem MMR framkvæmdi fyrir Viðskiptablaðið fyrir ári síðan kom fram að einn af hverjum sex Íslendingum, eða 16,7%, eru með aðgang að Netflix á heimili sínu. Um 5,5% aðspurðra sögðust ekki vera með þjónustuna, en að þeir ætli sér að kaupa áskrift að Netflix á næstu sex mánuðum.