Hlutabréf í streymisveitunni Netflix hafa hækkað í virði um 14,55% í dag þegar þetta er skrifað, en hækkunin kemur í kjölfar þess að félagið tilkynnti um að fyrirtækið hefði náð metfjölda viðskiptavina í lok síðasta árs eða yfir 200 milljón áskrifendum.

Fyrirtækið segir að með auknum tekjum vegna aukinnar eftirspurnar sem til hafi komið með meiri heimaveru á tímum heimsfaraldurs kórónuveirufaraldursins búist það við að hafa nægt sjóðsstreymi til að þurfa lánafyrirgreiðslur til að fjármagna áframhaldandi vöxt.

Aukinn áskrifendafjöldi streymisveitunnar kemur þrátt fyrir að fjöldi fyrirtækja hafi fylgt í kjölfar hennar og hafið rekstur á eigin streymisveitum, þar á meðal risar eins og Walt Diesney, APple, AT&T, HBO, og Comcast fyrirtækið, sem öll hafi byrjað starfsemi á síðasta ári.

Á árinu 2020 bættust 37 milljón nýir viðskiptavinir við hjá Netflix, og voru notendurnir orðnir 203,7 milljón talsins í árslok, sem er meira en tvöfaldur sá fjöldi sem nýtti þjónustu fyrirtækisins fyrir þremur árum. Á fjórða ársfjórðungi fjölgaði áskrifendunum um 8,5 milljón umfram þá sem hættu, sem var umfram væntingar.

Á ársfjórðungnunum jukust tekjur félagsins um ríflega fimmtung milli ára, úr 5,45 milljörðum Bandaríkjadala, í 6,64 milljarða dala, sem var umfram spár greinenda. Á sama tíma dróst þó hagnaður félagsins saman um 7,6%, úr 587 milljón dölum í 542 milljónir dala.

Fyrirtækið býst við að sjóðsstreymi félagsins á yfirstandandi ári verði í jafnvægi, en fyrri spár gerðu ráð fyrir því að það yrði neikvætt um sem nemur 1 milljarði Bandaríkjadala. Stjórnendur Netflix íhuga jafnframt að hefja endurkaup á hlutabréfum.

Á sama tíma og fjöldi framleiðslufyrirtækja í kvikmynda og sjónvarpsþáttageiranum hafa lent í vandræðum vegna heimsfaraldursins við framleiðslu sína eru meira en 500 þættir og myndir á síðustu stigum þess að geta komið út, eða þegar tilbúnir til birtingar.

Ástæðan að sögn WSJ er sú að Netflix byrjar framleiðsluferli sitt mun fyrr en hefðbundnari sjónvarpsmiðlar, sem gerði veitunni kleift að bjóða ferskt efni áfram þó faraldurinn geisi, sem aðrar nýrri streymisveitur hafa lent í vandræðum með.

Meðal þáttaraða og mynda sem hafa notið vinsælda á árinu eru The Queen´s Gambit, og nýjar seríur af bæði The Crown og Cobra Kai, sem veitan tók yfir frá Youtube, auk frönsku glæpaþáttaröðinni Lupin sem hefur orðið ein vinsælasta þáttaröðin á veitunni.