Bandaríska netsjónvarpsveitan Netflix hefur keypt réttinn af Sony Pictures til að framleiða sjónvarpsþáttaröð sem á að heita Better Call Saul og byggir á lögmanninum Saul Goodman úr þáttaröðinni Breaking Bad sem lauk nýverið. Áformað er að þættirnir verði frumsýndir á kapalstöðvunum AMC og SPT áður en þeim verður streymt hverjum á fætur öðrum hjá Netflix. Allir þeir sem hafa aðgang að þjónustu Netflix geta horft á hvern og einn þátt.

Tilkynnt var um samninginn í dag, að því er fram kemur á vef breska dagblaðsins Financial Times . Blaðið segir í umfjöllun sinni að frumsýningin marki tímamót enda liður í breyttu sjónvarpsáhorfi. Þetta er hins vegar fjarri því fyrsta sjónvarpsþáttaröðin sem sýnd er með þessum hætti. Bandarísku sjónvarpsþættirnir House of Cards voru einmitt sýndir fyrst hjá Netflix, sem framleiddi þá.

Áskrifendur Netflix-þjónustunner eru nú rúmlega 40 milljón talsins og hafa auk þess fjöldi Íslendinga aðgang að henni hér á landi.

Félaginu sem rekur Netflix-þjónustuna hefur gengið vel á hlutabréfamarkaði síðustu misserin en gengi hlutabréfa þess hefur hækkað um 300% frá áramótum.