Í skoðun er að taka upp hluta af nýrri 10 þátta sjónvarpsþáttaseríu á vegum Wachowskisystkinanna hér á landi í sumar.
Þættirnir heita Sense8 og eru þeir teknir upp víða eða á átta stöðum um heim allan, s.s. í Bretlandi, Suður-Kóreu, Indlandi, Afríku
og Þýskalandi auk Íslands. Ef allt gengur eftir mun framleiðslufyrirtækið Truenorth halda utan um upptökuteymið hér á landi.

Forsvarsmenn Truenorth hafa stofnað einkahlutafélagið Make Sense Prod ehf. utan um verkefnið. Í stofngögnum félagsins segir
að það sé stofnað um tímabundna endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Leifur Dagfinnsson hjá Trunorth vildi lítið sem
ekkert tjá sig um málið þegar eftir því var leitað að öðru leyti en því að málið væri í skoðun.

Framleiðandi Sense8 er efnisveitan Netflix og munu þættirnir verða sýndir þar eins og þættirnir House of Cards og Orange Is the New Black.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .