Netgíró, sem býður viðskiptavinum að fá vörur afhentar áður en þeir greiða fyrir þær, hefur gengið frá samningum við greiðslumiðlunarfyrirtækið Dalpay, samstarfsaðila Valitor og Borgunar.

Söluaðilar sem nýta sér vefposaþjónustu Dalpay geta nú einnig boðið viðskiptavinum upp á Netgíró sem greiðslumáta. Viðskiptin með Netgíró eru kortalaus og viðskiptavinir geta valið að dreifa greiðslum með raðgreiðslum í allt að 12 mánuði á hagstæðum kjörum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Netgíró í dag.

Kortalaus viðskipti Netgíró, hvort heldur sem bein eða raðgreiðslur, eru einföld, örugg og hentug. Hefur þessi þjónusta mælst mjög vel fyrir og fjöldi skráðra viðskiptavina hafa nýtt sér nú þegar þjónustu Netgíró. Á fyrstu starfsmánuðunum hafa um 20.000 viðskiptavinir skráð sig hjá Netgíró og söluaðilar eru orðnir um 400 talsins.

„Síðasti mánuður fór fram úr okkar björtustu vonum og söluaðilar sem hafa nýtt sér þjónustuna hafa fundið fyrir aukningu,“ segir Andri Valur Hrólfsson, framkvæmdastjóri Netgíró. Netgíró leggur mikla áherslu á góða þjónustu og tók nýverið í gagnið þjónustu sem felur í sér að viðskiptanir þurfa ekki að hafa lykilorð þegar þeir eru í verslunum. Hægt er að fá tímabundið lykilorð sent í SMS en það er hægt að nota einu sinni og gildir í nokkrar mínútur. „Markmiðið er að einfalda viðskiptin en tryggja um leið að þau séu örugg og hentug. Þetta er ein leið og við erum að vinna að fleiri lausnum sem vonandi verður hægt að kynna á næstu vikum,“ segir Andri Valur.