Flugfélag Íslands og Netgíró hafa undirritað samstarfssamning sem mun gefa flugfarþegum kost á því að nýta sér fjölbreyttari greiðsluleiðir en áður. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Netgíró.

Helsta breytingin felst í því að viðskiptavinir geta nú greitt flugið allt að fjórtán dögum eftir bókun. Því geta viðskiptavinir verið búnir að panta og fljúga áður en til greiðslu kemur. Auk þess er í fyrsta sinn verið að bjóða upp á greiðsluleið fyrir þá sem kjósa kreditkortalaus viðskipti.

Í tilkynningunni kemur fram að viðskiptin við Netgíró verði kortalaus og viðskiptavinir muni fá reikninginn sendann í netbankann. Samkvæmt Andra Val Hrólfssyni, framkvæmdastjóra Netgíró er markmiðið með samningnum að einfalda flugfarþegum viðskiptin við Flugfélag Íslands, án þess að það komi niður á öryggi eða hentugleika.