Pólska símafyrirtækið Netia, sem er að hluta til í eigu Novators, útilokar ekki að sameinast farsímafyrirtækinu Play. Þetta kom fram á kynningu fyrirtækisins í Varsjá í gær. Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, á um 30% hlut í Netia og saman eiga félögin Play, sem áður hét P4.

Sérfræðingar á pólskum fjármálamarkaði telja það einnig líklegt að Netia hafi áhuga á að leita eftir nýjum kjölfestufjárfesti og búast jafnvel við því að Novator minnki hlut sinn í félaginu. Félag Björgólfs Thors hefur áhuga á að leggja meiri áherslu á farsímahlutann, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins.

Netia greindi frá fjárhagsáætlunum sínum í gær og búast stjórnendur við að tekjur félagsins verði 865 milljónir pólskra zlotys á árinu 2007, sem samsvarar rúmlega 20 milljörðum íslenskra króna, sem er svipað og á árinu sem leið. Hins vegar er búist við að hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) muni dragast verulega saman á árinu 2007, eða í 130 milljónir zlotys úr 221,3 milljónum á árinu 2006. Ástæðan fyrir samdrætti EBITDA félagsins er aukin fjárfesting í breiðbandsþjónustu.

"EBITDA-spáin er vonbrigði," segir Pawel Puchalski, sérfræðingur hjá Bank Zachodni WBK í Varsjá. "Ákvörðun fyrirtækisins um að leggja áherslu á breiðbandsþjónustu er rétt, en það þarf að eyða verulegu fjármagni í að nálgast nýja viðskiptavini," segir Puchalski.

Tap af rekstri Netia á árinu 2006, sem var tólf sinnum meira en spár greiningaraðila og nam 379 milljónum zlotys, má að miklu leyti rekja til afskrifta, segja stjórnendur. Tap af rekstri Play skýrir einnig aukinn taprekstur félagsins. Hins vegar reikna stjórnendur félagsins með því að EBITDA muni aukast verulega árið 2009.

Play tók nýlega inn nýjan fjárfesti við yfirtöku á gríska fyrirtækinu Germanos þar sem greitt var fyrir félagið með hlutafé í Play. Eftir viðskiptin er hlutur Novators í félaginu 54,6% í stað 70% og hlutur Netia minnkar í 23,4%. Fjárfestingafélagið Tollerton, sem skráð er á Kýpur, eignaðist 22% í Play við það að leggja Germanos inn í félagið. Búist er við að mögulegt sé að Tollerton fjárfesti einnig í Netia ef af sameinignunni verður.

Í viðtali við Financial Times í síðustu viku sagði Björgólfur Thor að Play væri í brennidepli en Novator hefur fjárfest fyrir 750 milljónir evra í félaginu. Björgólfur Thor segir Play vera "eitt stærsta áhættuverkefnið sem við höfum tekið þátt í," en bendir einnig á að það sé eitt af metnaðarfyllri verkefnum félagsins