Það er klárt mál að auglýsingaumsvif á netinu munu halda áfram að aukast, segja forsvarsmenn Birtingarhússins. Fyrirtækið er eitt þeirra sem Creditinfo valdi fyrirtæki ársins 2012. Forsvarsmenn Birtingahússins segja að það sem áður hafi verið flokkað skýlaust sem ákveðnir miðlar eða miðlategundir sé smátt og smátt að renna saman í eina heild, eitt tæki. „Eins og allir þekkja nú er sjónvarpið ekki bara í hefðbundnu tækjunum, líka í tölvum, spjaldtölvum og símum,“ segir í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Spyr.is .

Birtingahúsið hefur verið að bæta við mannskap í starfsmannahóp sinn undanfarið. Í svari til Spyr.is segir að aukning verkefna sem snúa að netmarkaðsmálum sé helsta ástæðan. Sá þáttur muni halda áfram að vaxa. „Þar höfum við verið að kynna nýjungar og lausnir á undan öðrum - enda þurfum við að vera sífellt á tánum með að koma inn með ferskar hugmyndir,“ segir í svarinu.

Í svarinu segir jafnframt að viðskiptaumhverfið og sá markaður sem fyrirtækið starfi á hafi verið á fleygiferð. Mikið af nýjungum og umhverfið í dag sé talsvert frábrugðið því sem þekktist fyrir fimm árum síðan. Því sé  erfitt fyrir að spá fyrir um framtíðina, jafnvel ekki lengri tíma en fimm ár.