Gogogic er íslenskt leikjafyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu netleikja (e. casual games).  Slíkir leikir eru yfirleitt einmenningsleikir en Gogogic hyggur á þróun fjölspilunarleikja, þar sem margir þátttakendur spila saman, jafnvel út um allan heim.

,,Þessir leikir eru yfirleitt millistig milli einfaldra netleikja og þessara risastóru fjölspilunarleikja, eins og Eve Online" segir Jónas Björgvin Antonsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Samhliða framleiðslu netleikja framleiðir Gogogic líka auglýsingaleiki, þar sem búinn er til leikur kringum ákveðnar vörur eða þjónustu, auk þess sem fyrirtækið veitir markaðsráðgjöf á netinu.

Fyrirtækið var stofnað árið 2006 en þrír af fjórum stofnendum þess stunduðu nám saman í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík (HR).

,,Við vorum allir góðir námsmenn og röðuðumst því saman í hópa.  Eitt verkefna í skólanum var að smíða tölvuleik sem við leystum auðvitað með sóma. Þar kom berlega í ljós að þetta var svið sem við höfðum allir mikinn áhuga á."

Skólabræður Jónasar voru Guðmundur Bjargmundsson og Sigurður Eggert Gunnarsson en fjórði stofnandinn, Baldvin Jónsson, kom til sögunnar síðar.

Jónas segir þá fljótlega hafa velt fyrir sér þeim möguleika að nýta menntun og reynslu sína til að búa til tölvuleiki á netinu.  Hugmyndin var aldrei að búa til stóra leiki í anda EVE Online heldur smærri netleiki sem væru fjölspilunarleikir. Nokkurs konar millistig milli einfaldra netleikja og stærri og flóknari leikja.

Segja má að endapunkturinn í ferlinu hafi verið lokaverkefni þeirra í HR.  Verkefnið var unnið hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Betware og var prufutýpa af tölvuleik sem ber heitið Boss of Bosses.

,,Verkefnið varð kveikjan að því að við fórum út í þennan rekstur.  Leikurinn er ekki fullkláraður en við göngum með þessa hugmynd í maganum og langar að gera eitthvað virkilega flott við hana.  Við sýndum fram á það með lokaverkefni okkar að hugmyndin að leiknum gæti gengið upp."

_____________________________________

Nánar er fjallað um Gogogic í viðtali við Jónas Björgvin Antonsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, í Viðskiptablaðinu á morgun . Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .