Niðurhal erlendra ferðamanna á farsímaneti Símans jókst um nærri 280% milli júnímánaða nú og í fyrra. Á sama tíma fjölgaði tengdum tækjum ferðamanna um 40%. „Við teljum nýjar reikireglur fyrir Evrópusambandið og EES-svæðið sem lækka verð fjarskiptanna helstu ástæðuna,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans. Þessir Evrópubúar hafa frá 15. júní getað notað farsímann sinn án aukakostnaðar eða rétt eins og þeir væru heimavið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Símanum.

Síminn var vel undirbúinn aukinni notkun. „Uppbyggingin hefur verið mikil um land allt og tugir nýrra senda settir upp. Kveikt var á 4G sendi á Kópaskeri og á Snartarstaðanúpi í gær og á dögunum við Fjallsárlón við Vatnajökul, á Kröflusvæðinu, Snjóöldu sem þjónar Veiðivötnum og Landmannalaugum og á tjaldsvæðinu Hamri við Akureyri.“ Sá síðastnefndi hafi staðið í ströngu í blíðveðrinu þegar tjaldsvæðið var þéttsetið. „Hann var þá einn sá afkastamesti í 4G kerfi Símans sem skýrist nú reyndar af ferðalögum viðskiptavina okkar innanlands,“ segir hún.

Gunnhildur Arna segir áhugavert að velta fyrir sér áhrifunum af aukinni netnoktun ferðamanna hér á landi. „Samfélagsmiðlar eru vinsælir og taka sinn skerf af þessari notkun. Við vitum öll að mynd segir meira en 1.000 orð og hvert myndbrot á samfélagsmiðlum er landkynning fyrir Ísland.“

Gagnanotkun 2017 - Síminn
Gagnanotkun 2017 - Síminn