Sífellt fleiri Bandaríkjamenn eyða tíma á vefnum gegnum GSM-símann sinn. Nú stefnir í að þeir fari fram úr Bretum, sem hingað til hafa verið sú þjóð sem hvað mest nýtir sér þann möguleika.

Þetta kemur fram í gögnum frá fjarskiptafyrirtækinu Bango sem kynnt voru á MarketingCharts ( www.marketingcharts . com) í vikunni. Mesta netnotkunin gegnum GSM-síma er, samkvæmt fréttinni, í Bretlandi og stutt þar á eftir koma Bandaríkin.

Aðeins á eftir eru Indland og Suður-Afríka. Í fréttinni kemur fram að búist sé við að Bandaríkjamenn fari fram úr Bretum fljótlega enda aukist mikið úrvalið þar í landi af GSM-símum með breiðum skjám.

Auk þess eru fleiri fjarskiptafyrirtæki farin að bjóða upp á ótakmarkaðan netaðgang gegnum GSM-símann.