Brýnt er að auka vitund og viðbúnað gegn netógnum og stuðla að samvinnu í þeim efnum. Þetta kemur fram í áliti nefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Það var Valgerður Bjarnadóttir alþingismaður sem veitti nefndinni forystu. Í tillögum nefndarinnar segir að ástæða sé til að leggja sérstaka áherslu á þennan þátt.

„Netöryggi er nú hvarvetna talið einn mikilvægasti þáttur þjóðaröryggis. Nauðsynlegt er að treysta lagagrundvöll aðgerða til að stuðla að netöryggi og viðbragðsgetu við mögulegri vefvá,“ segir síðar í tillögum nefndarinnar.

Nefndin sem Valgerður veitti forystu var skipuð á síðasta þingi og sátu fulltrúar allra þingflokka í henni. Nefndin leitaði víða fanga við undirbúning tillagnanna og hitti fyrir innlenda og erlenda sérfræðinga. Í tillögum nefndarinnar er þjóðaröryggi skilgreint með víðtækum hætti og tekur til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis.

Nefndin hefur skilað Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra tillögunum. Utanríkisráðherra mun, á grundvelli tillagna nefndarinnar, leggja þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisstefnu Íslands fyrir Alþingi.