Eigendur spjaldtölva og snjallsíma rápa helst um Netið að morgni dags og aftur á kvöldin. Uppsveiflan hefst upp úr klukkan sex að morgni og dregur úr notkuninni eftir klukkan átta. Í kringum átta á kvöldin eykst netrápið á ný og stendur það nokkuð sleitulítið fram að miðnætti.

Netráp á nettengjanlegu tæki á kvöldin er ólíkt byrjun dagsins. Þegar degi tekur að halla kjósa fleiri að skoða netsíður á spjaldtölvum en í snjallsímum.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýlegri skýrslu bandaríska markaðsrannsókna- og greiningafyrirtækisins ComScore.

Á meðal þess sem þar kemur fram er að tæplega þrír af hverjum fimm eigendum spjaldtölva og snjallsíma lesa fréttir á tækjum sínum öðru hverju. Rétt rúmlega fimmtungur, 22 prósent, notar tækin til að lesa fréttirnar á hverjum degi.