Glitnir kynnti í dag til leiks nýja innlánareikninga undir nafninu Save&Save. Reikningarnir verða fyrst um sinn boðnir á Íslandi og Noregi. Að sögn Lárusar Welding, forstjóra Glitnis, er nokkurra mánaða að bíða þar til reikningarnir verða boðnir á Bretlandi.

Fram kemur í tilkynningu frá Glitni að ávallt verði boðnir einir hæstu vextirnir á reikningunum á hverjum markaði fyrir sig.

Um er að ræða óbundinn, óverðtryggðan innlánsreikning. Engin þjónustugjöld verða á reikningum og hægt verður að taka út af honum hvenær sem er.

Glitnir mun að sama skapi leggja til 0,1% mótframlag af innistæðu á ársgrundvelli í nýjan sjóð sem heitir Glitnir Globe. Sá sjóður mun styrkja sjálfbæra þróun á sviði sjávarútvegs og orkumála. Í stjórn sjóðsins situr meðal annars rektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir. Árni Magnússon veitir sjóðnum formennsku.

Fyrst um sinn verða boðnir 15% vextir á Íslandi á Save&Save-netreikningum. Einnig er boðið upp á reikninga þar sem vextir eru greiddir út mánaðarlega, en þá er lágmarksinnlögn 100.000 krónur og ársbinditími á innistæðu.