Dagur upplýsingatækninnar var haldinn í gær 7. maí. Af því tilefni stóðu Skýrslutæknifélagið og forsætisráðuneytið fyrir ráðstefnu á Hilton Nordica undir yfirskriftinni „Netríkið Ísland".

Þar var m.a. kynnt ný stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið sem mun verða vegvísir stjórnvalda að þróun rafrænnar stjórnsýslu og nýtingu upplýsingatækni árin 2008-2012.

Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, kynnti stefnuna fyrir ráðstefnugestum. Þar kom m.a. fram að helsta einkenni hennar sé sú áhersla sem lögð er á að auka framboð á þjónustu opinberra aðila á netinu, enda sé framtíðarsýn stefnunnar sú að Íslendingar verði fremstir þjóða í rafrænni þjónustu og nýtingu upplýsingatækni.

Guðbjörg segir Íslendinga standa vel að vígi á flestum sviðum upplýsingatækninnar en skeri sig úr þegar kemur að framboði opinberra aðila á þjónustu á netinu.

„Þar stöndum við okkur illa og erum að dragast aftur úr ef eitthvað er. Hins vegar er athyglisvert að þær lausnir sem í boði eru, t.d. hjá skattinum, eru mjög mikið notaðar og í raun miklu meir en þekkist í nágrannalöndum okkar."

Hún segir það merki um að Íslendingar séu tilbúnir að nota slíka þjónustu, sé hún í boði.

Hún segir einkenni íslenskra stofnana vera hversu litlar þær séu miðað við sambærilegar stofnanir erlendis.

„Við erum eftir að útfæra betur hvernig við munum framfylgja stefnunni en við höfum lagt mikla áherslu á samvinnu stofnana enda getur verið mikið átak að koma sér upp fullkominni sjálfvirkni og sjálfsafgreiðslu."

Fjölmargir aðilar héldu fyrirlestur á ráðstefnunni og segir Guðbjörg þá hafa fjallað um nokkur þeirra verkefna sem nú eru í vinnslu, þ.á.m. rafrænar sveitarstjórnarkosningar, rafræn skilríki og rafræna þjónustu sveitarfélaga.

„Þetta eru náttúrulega mörg verkefni, 65 verkefni og verkefnaflokkar, sem skilgreind eru í stefnunni. Það eru heilmörg verkefni í gangi sem ekki voru kynnt þarna og dreifast á ráðuneytin og ýmsar opinberar stofnanir."

Hún segir að farið verði betur yfir stöðu verkefna á næsta UT-degi eftir ár og þá verði stöðuskýrslur gefnar út yfir þau verkefni sem séu í vinnslu.