Þrátt fyrir að Covid-19 faraldurinn hafi leitt til einnar mestu efnahagsniðursveiflu í heila öld þá hafa hlutabréf stærstu tæknifyrirtækja í heiminum hækkað verulega á árinu.

Gengi Amazon hefur til að mynda hækkað um 66% á árinu, Apple um 53%, Facebook um 25%, Microsoft um 30% og Alphabet, móðurfélag Google, um 10%. Fyrirtækin fimm vega í dag um fjórðung af S&P 500 vísitölunni en vægi þeirra hefur tvöfaldast á síðustu fimm árum.

Vísitalan, sem byggist á markaðsvirði 500 stórra fyrirætkja á bandaríska hlutabréfamarkaðnum, hefur hækkað um 2,3% á árinu en hún hefði lækkað um 4-5% hefði ekki verið fyrir tæknifyrirtækin fimm. Verð/hagnaðar hlutfall, sem byggir á hagnaðarspám fyrir næsta fjárhagsár (e. forward 12-month P/E ratio), vísitölunnar fór upp fyrir 25 í fyrsta skipti síðan september 2000, í .com verðbólunni, samkvæmt FT .

Uppgjör Apple bar af

Apple stefnir í að brjóta tveggja billjóna dollara múrinn á næstu vikum en markaðsvirði félagsins er komið í 1.965 milljarðar dollara í dag. Hlutabréf félagsins hafa hækkað um 19,5% frá því að það birti uppjör fyrir annan ársfjórðung. Tekjur Apple námu 59,7 milljörðum dollara og jukust um 11% á ársfjórðungnum samanborið við sama tímabil í fyrra en fjárfestar og greiningaraðilar höfðu spáð 3% samdrætti.

Sala Amazon á öðrum ársfjórðungi nam 88,9 milljörðum dollara  sem er 40% hækkun frá sama tímabili í fyrra. Hagnaður fyrirtækisins nam 5,2 milljörðum dollara og tvöfalt meiri en í fyrra og talsvert yfir væntingum greiningaraðila.

Þrátt fyrir aukinn hagnað nam kostnaður vegna Covid-19 veirunnar rúmum fjórum milljörðum dollara á tímabilinu og gerir félagið ráð fyrir tveggja milljarða dollara kostnaði tengdum Covid á núverandi ársfjórðungi. Amazon hefur ráðið 175 þúsund nýja starfmsmenn í faraldrinum og hyggst halda 125 þúsund þeirra vegna varanlega aukins umfangs fyrirtækisins.

Tekjur Alphabet, móðurfélags Google, námu 38,3 milljörðum dala og drógust saman um 2% á öðrum ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra en þetta er fyrsti tekjusamdráttur í sögu félagsins. Þar vóg þyngst 8% samdráttur í auglýsingatekjum Google.

Tekjur Facebook námu 18,7 milljörðum dala á öðrum ársfjórðungi sem er 11% vöxtur frá sama tímabili í fyrra. Engu að síður hefur tekjuvöxtur Facebook ekki verið lægri frá skráningu fyrirtækisins í New York Kauphöllina í maí 2012.

Tekjur Microsoft á fjórðungnum sem lauk þann 30. júní námu 38 milljörðum dala sem er 13% vöxtur frá fyrra ári. Hagnaður fyrirtækisins nam 11,2 milljörðum dala. Tekjur af More Personal Computing deildinni, sem inniheldur Windows stýrikerfið, Surface spjaldtölvurnar og leikjastarfsemi, jukust um 14% og námu 12,9 milljörðum dollara sem fyrirtækið rekur til aukinnar eftirspurnar eftir tölvuleikjum og aðsókn í fjarvinnu í heimsfaraldrinum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .