Þátttaka almennings í peningaspilum á Netinu, bæði fullorðinna og unglinga, er nokkurt áhyggjuefni að mati þeirra sem könnuðu spilahegðun Íslendinga fyrir dómsmálaráðuneytið.

Sérstaklega sé hún áhyggjuefni þar sem framboð á vefsíðum er bjóða upp á peningaspil hafi stóraukist á undanförnum árum og lúti flestar þeirra engum lögum eða reglum um starfsemi sína.

Fjórföldun netspilara á örfáum árum

Niðurstaða könnunarinnar er m.a. sú að fjórum sinnum fleiri Íslendingar spiluðu peningaspil á erlendum vefsíðum í fyrra en árið 2005 og að hlutfall þeirra sem eiga við spilavanda að etja er hærri meðal netspilara en flestra annarra gerða peningaspila.

„Það kann bæði að vera að peningaspil á Netinu séu sérstaklega ánetjandi eða að þeir sem eiga við spilavanda að stríða séu í auknum mæli að spila peningaspil á Netinu,” segir m.a. í skýrslu um niðurstöður könnunarinnar.

Um 15% Íslendinga spiluðu peningaspil á netinu árið 2007, langflestir á íslenskum vefsíðum þar sem hægt er að spila í Lottó eða giska á úrslit í fótbolta eða öðrum íþróttum. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar höfðu um 1,6% landsmanna spilað peningaspil á erlendum vefsíðum árið 2007 en tæplega 0,4% sögðust hafa spilað á slíkum síðum árið 2005. Netpóker er vinsælasta gerð peningaspila sem spiluð eru á erlendum vefsíðum.

Ef allt var saman tekið, allt frá fjárhættuspilum á netinu og í heimahúsum eða klúbbum, til kaupa á happdrættismiðum eða Lottó- eða skafmiðum í búðum o.s.frv., kom í ljós að 67% fullorðinna Íslendinga spilaði peningaspil a.m.k. einu sinni síðustu 12 mánuði áður en könnunin var gerð.

Vinsælustu peningaspilin voru Lottó, flokkahappdrætti, skafmiðar og spilakassar. Flestir sögðust spila peningaspil til að styðja gott málefni, ánægjunnar vegna eða til að græða peninga. Þegar niðurstöður um spilahegðun fyrir árin 2005 og 2007 eru bornar saman kemur í ljós að almennt hafa orðið tiltölulega litlar breytingar á spilahegðun Íslendinga á þessu tímabili.

Um 2.500-4.400 Íslendingar spilasjúkir

Niðurstöður sýna að 1,6% þjóðarinnar töldust eiga við spilavanda að stríða og er vandinn algengari meðal karla en kvenna.

„Gera má ráð fyrir að á bilinu 2.500-4.400 Íslendingar á aldrinum 18-70 ára eigi í verulegum vandræðum vegna þátttöku sinnar í peningaspilum,” segir m.a. í niðurstöðum skýrslunnar.

Samanburður á niðurstöðum fyrir árin 2005 og 2007 sýndi að hvorki hefur orðið breyting á algengi spilafíknar né spilavanda á þessu tímabili.

Könnunin byggðist á tilviljunarúrtaki 5000 Íslendinga á aldrinum 18 til 70 ára úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 63,4%.