Tvær mínútur tekur að setja upp netþjón í tölvuskýi Nýherja og rúma mínútu að ræsa stýrikerfið þar í fyrsta sinn. Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli Helga Björgvinssonar, lausnaráðgjafa hjá Nýherja á afmælisráðstefnu fyrirtækisins í síðustu viku.

Helgi fjallaði þar um svokallað Iaas tölvuský og sagði mikið hagræði fólgið í því fyrir viðskitpavini að geta aukið og dregið úr fjölda og aflil netþjóna í sjálfsafgreiðslu.

Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja að fyrirtækið bjóði nú viðskiptavinum sínum í svokallaðar betaprófanir á tölvuskýi. Þar geta þeir sett upp netþjóna í sjálfsafgreiðslu og aðeins greitt fyrir þær klukkustundir sem þjónarnir eru í notkun. Engin fjárbinding er í búnaði fyrir viðskiptavini þar sem hann er vistaður í tölvuskýi Nýherja en fyrirtækið annast allar uppfærslur, öryggi og viðhald.