Nettóstaða bankastofnana í erlendum gjaldeyri hefur hækkað um 60% undanfarna 12 mánuði, reiknað á föstu gengi krónu, og endurspeglar það ört vaxandi erlendar eignir bankanna og þörf þeirra fyrir að verja eiginfjárhlutfall sitt fyrir gengissveiflum að því sem segir í Morgunkorni Glitnis.

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabanka var nettóstaða bankastofnana í erlendum gjaldeyri 564 milljarðar króna.í janúarmánuði. Er það langt umfram þá meginreglu Seðlabanka að bankarnir skuli ekki víkja meira frá jafnvægi eigna og skulda í erlendum gjaldmiðlum en sem nemur 30% af eigin fé þeirra.

Hins vegar getur Seðlabankinn veitt undanþágu frá þessari reglu ef tilgangurinn með frávikinu er að verja eiginfjárhlutfall fyrir sveiflum í gengi. Seðlabankinn segir á heimasíðu sinni að slík heimild hafi verið veitt nokkrum bankastofnunum, og hlýtur það að teljast eðlilegt í ljósi þess hversu umfangsmiklar erlendar eignir eru í efnahagsreikningi margra íslenskra fjármálastofnana, segir í Morgunkorninu.