Ný lágvöruverðsverslun Nettó opnar á Grandagarði við gömlu höfnina í Reykjavík eftir fáeinar vikur. Lágvöruverðsverslun Iceland er þar nú þegar til húsa. Verslanir Bónuss og Krónunnar eru á svipuðum slóðum og verslanir Víðis og Nóatúns í nágrenninu.

Fram kemur í tilkynningu frá Samkaupum, sem rekur Nettó, að tryggir viðskiptavinir Nettó sem búa í mið- og vesturhluta Reykjavíkur og verslað hafa í Nettó í Mjódd hafi löngum óskað eftir því að fyrirtækið opnaði fleiri dagvöruverslanir í höfuðborginni. Þetta verður ellefta verslun Nettó en sú fyrsta opnaði á Akureyri árið 1988.

Þá segir í tilkynningunni að Í Nettó-versluninni  á Grandagarði verður innleitt nýtt sorpflokkunarkerfi og verður úrgangur flokkaður í þrjá flokka, almennt rusl, pappa og pappír og lífrænan úrgang. Afar fáar verslanir á Íslandi flokka rusl með þessum hætti. Þá segir í tilkynningu jafnframt að Nettó er fyrsta matvörukeðjan á Íslandi sem vinnur markvisst að því að setja loka á gólffrysta í verslunum sínum til að tryggja betur gæði frystra matvara og draga um leið úr raforkunotkun, sem er vistvænn orkusparnaður.