Erlend verðbréf voru seld fyrir um 44,36 milljarða króna nettó í mars, samkvæmt greiningardeild Glitnis.

Það er mikill viðsnúningur frá því sem verið hefur um hríð en met hafa verið slegin í kaupum á erlendum verðbréfum undanfarna mánuði.

Viðskiptin skiptust þannig að nettókaup á hlutdeildarskírteinum námu 6,17 milljörðum króna og skuldabréfum 4,65 milljörðum króna. Nettósala á hlutabréfum nam hins vegar 55,35 milljörðum króna, að sögn greiningardeildar.

Ástæðu þess má rekja til þess að eign innlánsstofnana í erlendum hlutabréfum lækkaði um 17 milljarða króna í mánuðinum.

?Ennfremur má ætla að hópur fjárfesta hafi viljað nýta sér snarpa veikingu krónunnar og innleysa gengishagnað af erlendri verðbréfaeign sinni en krónan veiktist um tæp 8% í mánuðinum. Mikið útflæði krónu hefur þurft á móti þessari sölu erlendra verðbréfa að því gefnu að andvirðinu hafi verið skipt yfir í krónu." segir greinigardeildin.

Veltutölur á millibankamarkaði með gjaldeyri styðja það en veltan í marsmánuði var yfir 650 milljarðar króna. Til samanburðar var meðalvelta á millibankamarkaði með gjaldeyri rétt yfir 250 milljarðar króna á mánuði síðustu sex mánuði á undan.

"Innlendir fjárfestar hafa nýtt sér sterkt gengi krónunnar síðustu mánuði til fjárfestinga í erlendum verðbréfum. Er það mat okkar að veiking krónunnar muni draga úr þeirri miklu áherslu sem verið hefur á kaup í erlendum verðbréfum þó við teljum að þau muni verða umtalsverð áfram," segir greiningardeildin.